Við hjá Bókabeitunni, Marta Hlín og Birgitta Elín, erum meistarar í náms- og kennslufræðum með íslensku og íslenskukennslu sem sérgrein. Í kennaranáminu beindist áhugi okkar fljótlega að bókmenntakennslu og undanfarin sex ár höfum við því legið yfir íslenskum bókmenntum okkur til ómældrar ánægju og yndisauka. Við skrifuðum saman B.Ed. ritgerðina Bókabeitan árið 2009 og unnum hvor sína M.Ed. ritgerðina um bókmenntakennslu árið 2011; annars vegar á miðstigi grunnskóla og hins vegar á unglingastigi. Áhersla beggja var á að nota mætti meira af barna- og unglingabókum við kennslu barna og unglinga.

Helstu niðurstöðurnar rannsóknar- og undirbúningsvinnu fyrir M.ed. ritgerðirnar voru þær að besta leiðin til að efla yndislestur barna og unglinga væri að láta þau hafa spennandi og skemmtilegar bækur. Og ekki síst að börn og unglingar hafi eitthvað um það að segja hvað þau lesa sér til ánægju. Val er lykilatriði í að efla lestraráhuga. Þetta eru nokkrar af ástæðunum fyrir því að árið 2011 ákváðum við að stofna bókaútgáfu sem hefur það að markmiði að efla bóklestur barna og unglinga með útgáfu á gæðaefni sem beint er sérstaklega að þessum hópi.

Í dag, 6 árum síðar, hefur markmiðið ekki breyst heldur víkkað út. Nú gefum við ekki eingöngu út barna- og unglingabækur, heldur vandaðar, áhugaverðar, spennandi og skemmtilegar bækur fyrir alla.