fbpx

 

 

 

 

Í ljósaseríunni eru bækur sem eru sniðnar að þörfum nýrra lesenda og kjörnar fyrir þá sem eru að æfa sig í lestri. Bækurnar eru misþungar en hafa allar þægilegt letur og rúmt línubil.

Góða skemmtun!

Afi sterki og skrímslin í Kleifarvatni eftir J.K. Kolsöe

Ferðalag langfeðganna heldur áfram.
Nú fara þeir á Bedfordinum að Kleifarvatni með viðkomu í Strandakirkju.
Við Kleifarvatn vakna þeir upp við vondan draum. Getur verið að allar þjóðsögurnar séu sannar? Að það séu ekki bara skessur í Þrengslunum, nykur í Hlíðarvatni heldur líka skrímsli í Kleifarvatni?

Bergrún Íris Sævarsdóttir myndskreytti

 

Korkusögur eftir Ásrúnu Magnúsdóttir

Korka er með sítt ljóst hár og stór blá augu. Sumir segja að hún sé algjör fyrirmyndarstúlka en foreldrar hennar vita betur. Korka er nefnilega algjör prakkarakringla sem ræður stundum ekkert við fjörið innra með sér og hefur lag á því að koma sér í vandræði. Það er samt sjaldnast henni að kenna, það gerist bara alveg óvart.

Sigríður Magnúsdóttir myndskreytti

Pétur og Halla við hliðina: Útilegan eftir Ingibjörgu Valsdóttur

Nágrannarnir Pétur og Halla eru góðir vinir þótt Höllu finnist best að vera á fleygiferð en Pétur vilji heldur vera í rólegheitum. Þau fá leyfi til að fara ein í útilegu og þar gerast fyndnir, óvæntir og líka ægilegir atburðir.

Auður Ýr myndskreytti

 

 

Tinna trítlimús eftir Aðalstein Stefánsson

Tinna trítlimús er hugrakkasta músastelpan í Heiðmörk. Hún lendir í æsilegu ævintýri með besta vini sínum, Kola kanínustrák, þegar þau leggja í hættulegan leiðangur til að sækja lyfjagras handa veikri ömmu Tinnu. Tinna og Koli verða að nýta allt sitt hugrekki til að bjarga lífi sínu og komast heim til ömmu.

Ingi Jensson myndskreytti.

 

 

Pétur og Halla við hliðina: Útilegan eftir Ingibjörgu Valsdóttur

Halla er nýflutt í húsið við hliðina á Pétri. Hann veit ekki alveg hvort þau geti verið vinir því Halla vill alltaf vera á fleygiferð en Pétri finnst gott að vera kyrr. Hún fær Pétur til að fara með sér í fjöruferð einn rigningardaginn – með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Auður Ýr myndskreytti

 

 

Amma óþekka – Klandur á Klambratúni eftir J. K. Kolsöe

Í þessari sögu má segja að ævintýrin elti ömmu og Fanneyju Þóru alla leiðina heim. Þær langmæðgur eru að leika sér á Klambratúni í Reykjavík þegar gömul vá lætur á sér kræla; sjálf Grýla lifnar við og er sársvöng eftir langan dvala. Sem betur fer eru Fanney Þóra og amma ráðagóðar sem fyrri daginn.

Amma óþekka – Klandur á Klambratúni er þriðja bókin í hinum sívinsæla flokki um ömmu og Fanneyju Þóru.

Bergrún Íris Sævarsdóttir myndskreytti

 

Afi sterki – Hættuför að Hlíðarvatni eftir J. K. Kolsöe

Afi sterki hefur krafta í kögglunum og ráð undir rifi hverju!

Afi Magni og Aron Magni halda í ferðalag á Bedfordinum. Í þetta sinn er ferðinni heitið að Hlíðarvatni þar sem langfeðgarnir ætla að veita silung í net. Aron Magni hefur áhyggjur af því að nykurinn í Hlíðarvatni hafi vaknað um leið og skessuskammirnar í Þrengslunum en afi hefur

litla trú á því. Þeir komast þó á raun um að sumar munnmælasögur eru dagsannar!

Bergrún Íris Sævarsdóttir myndskreytti

 

Amma óþekka og huldufólkið í hamrinum  

Amma óþekka gerir það sem hún vill – þegar hún vill! 
Í þessari sögu fara þær langmæðgur í heimsókn til vinkonu ömmu í Hveragerði. Á Jónsmessunótt finnur Fanney Þóra töfrastein sem flytur hana í álfheima. Þar er allt í uppnámi því Blæheiði álfadrottningu hefur verið rænt af ófrýnilegum svartálfi.
Amma óþekka og Fanney Þóra deyja þó ekki ráðalausar.

Bergrún Íris Sævarsdóttir myndskreytti

 

Afi sterki og skessuskammirnar eftir J. K. Kolsöe

Afi sterki hefur krafta í kögglunum og ráð undir rifi hverju!

Afi Magni býður Aroni Magna í ferðalag á Bedfordinum. Í Þrengslunum brestur á þrumuveður sem kemur af stað skelfilegri skriðu. Lætin eru þvílík að tvær skessur sem hafa sofið vært um árabil hrökkva upp með andfælum.
Nývaknaðar skessur eru glorsoltnar og vita fátt betra en litla stráka. Það er eins gott að hann afi kann sitthvað fyrir sér!

Bergrún Íris Sævarsdóttir myndskreytti.

 

Amma óþekka og tröllin í fjöllunum eftir J.K. Kolsöe 
Amma óþekka gerir það sem hún vill – þegar hún vill!

Í þessari sögu fara þær amma og Fanney Þóra á fjöll. Þar ætla þær að teikna og mála, sofa
í tjaldi, sjóða pylsur á prímus og drekka kakó.

Íslenska náttúran er hins vegar óútreiknanleg og yfirvofandi eldgos setur heldur betur strik í reikninginn.  Þegar allt stefnir í óefni berst þeim hjálp úr óvæntri átt.

Bergrún Íris Sævarsdóttir myndskreytti.

 

Funi og Alda falda eftir Hilmar Örn Óskarsson

Funi veit ekkert skemmtilegra en að vera inni.

Skemmtilegast af öllu finnst honum þó að vera inni OG í tölvunni. Mamma er ekki sammála og heimtar að hann fari út að leika og svoleiðis lagað getur gert Funa alveg ferlega fúlan.
Einn góðan veðurdag þegar hann hangir úti, í einni af ferlegu fýlunum, hittir hann dularfulla stelpu sem fer með hann í stórkostlegt ferðalag.

Helga Ármann myndskreytti

 

Bækur úr Ljósaseríunni fást hjá eftirtöldum söluaðilum og hjá öllum betri bóksölum: